Uppskeruhátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Tinna Marlis, Daníel Snær og Karen Linda
Tinna Marlis, Daníel Snær og Karen Linda

Nemendur í 7. bekk hafa tekið þátt í Stóru upplestrarkeppninni í vetur og var uppskeruhátíð haldin á Þórshöfn miðvikudaginn 27. apríl.  Á hátíðinni kepptu níu nemendur frá þremur skólum, frá Grunnskólanum á Þórshöfn, Öxarfjarðarskóla og Borgarhólsskóla. 

Skáld keppninnar í ár voru Hrund Hlöðversdóttir og Þórarinn frá Steintúni. Lesnir voru valdir kaflar úr bókinni Ógn, ráðgátan um Dísar-Svan eftir Hrund og fengu allir þátttakendur gefins eintak af þeirri bók. Ljóðin sem lesin voru eftir Þórarin voru úr ljóðakverinu Útfall en meginstef í ljóðum hans er náttúrulýsing og ást á landi og tungu. 

Í dómnefnd voru Ingibjörg Einarsdóttir, Þorkell Björnsson og Oddur Skúlason. 

Veitt voru peningaverðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin, 10, 15 og 20 þúsund og var það kvenfélagið Hvöt sem gaf þau verðlaun.

Daníel Snær Lund frá Borgarhólsskóla var í 1. sæti, Karen Linda Sigmarsdóttir frá Borgarhólsskóla í 2. sæti og Tinna Marlis Gunnarsdóttir frá Grunnskólanum á Þórshöfn í 3. sæti. 

Langanesbyggð gaf kennurum 7. bekkjar úr skólunum þremur og dómnefnd kerti og sápu úr heimabyggð,  frá Sælusápum. 

Nemendur úr Tónlistarskóla Langanesbyggðar fluttu lagið Scarborough Fair með Simon and Garfunkel í upphafi hátíðar.

Þetta er í fyrsta skipti sem þessi hátíð er haldin á Þórshöfn og þökkum við öllum sem komu. Það var gaman að fá tækifæri til að bjóða öðrum skólum til okkar. Við þökkum dómnefnd sérstaklega fyrir þeirra vinnu og Kvenfélagið Hvöt fær bestu þakkir fyrir stuðninginn. 

Hér má sjá myndir frá hátíðinni