Trunt, trunt, tröll og allar aðrar landsins vættir

Á hverju ári býður Skaftfell listamiðstöð Austurlands upp á listatengt fræðsluverkefni fyrir nemendur á Austurlandi og Norðausturlandi. Verkefnið er hluti af List fyrir alla og BRAS – menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Listfræðsluverkefni Skaftfells 2024 er hannað og kennt af Solveigu Thoroddsen listakonu og dregur innblástur úr þjóðsöguarfi og nærumhverfi þáttakenda. Verkefnið mun ferðast milli skóla í tvær vikur í október.

Markmið
Verkefnið miðast að því að gefa þáttakendum tækifæri að vinna með innsetningalist sem form þar sem notast er við mismunandi miðla eins og ljósmyndun og skúlptúrgerð til að búa til innsetningu í rými. Með því að vinna með insetningar gefst gott tækifæri til að horfa á sitt daglega rými (kennslustofuna) með nýjum augum og sjá hvernig hægt er að breyta rými með einföldum inngripum. Í þessari smiðju gefst þáttakendum tækifæri að skoða umhverfi sitt upp á nýtt, bæði út frá útsýni og sjónrænum áhrifum en einnig út frá mannfræðileg sjónarhorni með rýni í þjóðsögur. Í smiðjunni munu nemendur vinna saman í hópum og skapa saman listaverk og gefur það gott tækiværi á samsköpun og samvinnu.

Framkvæmd
Byrjað er á stuttu spjalli um þjóðsögurnar okkar, tilurð þeirra, fjölbreyttar kynjaverur sem þar er að finna, tengingu við umlykjandi náttúru o.fl. Eru einhverjar þjóðsögur ykkur hugleiknar eða þekkið þið einhverjar úr ykkar nágrenni?

Unnið er að sameiginlegu myndverk, s.k. innsetningu þar sem notast er við margvísleg efni úr umhverfi okkar og mismunandi miðla. Þrír til fimm (sveigjanlegt) nemendur vinna saman að einu verki.

Innsetningin saman stendur af ljósmynd sem hópurinn tekur af landslagi síns umhverfis (fjöll, fjörður, heiði….). Myndinni er svo varpað upp á vegg og innsetning sköpuð með útklipptum skuggamyndum, ( t.d. úr pappa). Einnig verður notast  við efni úr umhverfi/náttúru, annars vegar til að búa til skuggamynd á vörpunina eða búa til skúlptúr sem hluta af innsetningunni.

Þjóðsögurnar eru sambland af raunverulegu fólki, stöðum og atburðum í bland við fullkomna fantasíu. Þess vegna mun hugmyndaflugið ráða förinni og veröld sköpuð þar sem allt er leyfilegt og þarf ekki að standast nein rök.

Kennari

Solveig Thoroddsen og er grunnskólakennari og listakona úr Reykjavík. Hún lauk kennaranámi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1999 og hefur starfað við kennslu með hléum. Hún lauk listnámi frá Listháskóla Ísland 2010, B.A. og 2015 M.A., og hefur verið virk myndlistarkona allar götur síðan. Myndsköpunina vinnur hún í þá miðla sem henta verkefninu hverju sinni; Gjörningar, vídeó innsetningar, skúlptúrar, prent, ljósmyndir og málun. Helstu viðfangsefni eru manneskjan og náttúran með tilliti til umhverfisverndar, manneskjan í samfélaginu. Verkin hafa mjög gjarna femíniskar skírskotanir.