Tónleikar fyrir grunnskólann - "Fiðla og fótstigið"

Fiðla og fótstigið er samstarfsverkefni fiðluleikarans Láru Sóleyjar Jóhannsdóttur og organistans Eyþórs Inga Jónssonar. Um er að ræða fræðandi, skapandi og aðgengilegt tónleikaprógram sem ætlað er nemendum á grunn- og framhaldskólaaldri. Flutt er tónlist eftir mörg af þekktustu tónskáldum veraldar í nýjum búningi þar sem útsetningar og spuni setja létta, þjóðlega stemmningu og gera tónlistina enn aðgengilegri hlustendum; Mozart á moldargófli, Schubert í sauðskinsskóm, Liszt í lopapeysu, Handel með hangikjöti og Lully lundabaggi eru uppskriftir tónleikanna. Leikið er á fiðlu og fótstigið orgel, harmoníum. Flytjendur eru í þjóðbúningum og notast jafnframt við skjávarpa þar sem myndum og fræðslu frá viðeigandi tónlistartímabilum er varpað upp. Leitast er við að tónleikagestir taki virkan þátt í tónleikunum meðal annars með söng og klappi. Um er að ræða sjálfsprottið starf sem stuðlar að fjölbreyttari menningarstarfi sem sniðið er sérstaklega fyrir börn og ungmenni og flutt í þeirra nær umhverfi. Með tónleikunum vilja flytjendur auka áhuga og þekkingu á klassískri tónlist og ala upp hlustendur og leikendur þess konar tónlistar. Verkefnið hefur fengið frábærar viðtökur og hafa þónokkrir skólar á Eyjafjarðarsvæðinu nú þegar verið heimsóttir. Verkefnið er styrkt af Norðurorku og Akureyrarstofu. Við hlökkum til að taka á móti þeim Láru og Eyþóri í Þórsver miðvikudaginn 16.september kl. 11:15.