Skólaslitaræða 2014

 

Ágætu nemendur, foreldrar og forráðamenn, góðir gestir!

Nú lýkur Grunnskólinn á Þórshöfn sínu áttugasta starfsári.

Skólaárið hefur verið tíðindasamt og ótal verkefni orðið til, unnin og leyst. Önnur bíða næsta skólaárs. Og enn verður það svo um sinn, því skólastarf er breytingastarf – þróunarvinna okkar allra sem tengjumst skólanum. Hefðir og siðir eru mikilvægir í öllu starfi en það er líka mikilvægt að hafa svigrúm fyrir breytingar, því þær færa okkur fram á veginn.

Skólastarfið byrjaði af miklu krafti.  10. bekkingarnir okkar spókuðu sig um á vegum NordPlus í Eistlandi og Lettlandi ásamt þeim Árna Davið og Maríu á Bakkafirði en Bakkfirðingar fóru einnig í þessa ferð með okkur. Ferðin gekk hið besta og við fengum hressa og káta krakka til baka, þess albúnir að takast á við hið bóklega nám.  Samstarf við NordPlus er enn í gangi og umsóknir frá okkur eru þar inni, en við verðum að sjá til og bíða hvað verða vill í þeim efnum.

Þess má reyndar geta hér í framhaldinu að samstarf við Grunnskólann á Bakkafirði hefur aukist jafnt og þétt í vetur og allt útlit er fyrir að samstarf okkar haldi áfram að vaxa og dafna næsta vetur. Það tel ég afar gleðilegt og skólunum báðum til framdráttar og nemendum okkar til góðs.

Nú þegar skólaárinu er senn lokið tilheyrir að líta yfir vetrarstarfið.

Skólinn byrjaði af krafti og markið var sett á afmæli Grunnskólans á Þórshöfn. Nemendur og starfsfólk allt lögðu sig fram um að undirbúa veglega afmælisdagskrá með góðum stuðningi foreldrafélags skólans og Hollvina Grunnskólans. Skemmst er frá því að segja að afmælisdagurinn lukkaðist frábærlega, góð aðsókn var og skólanum bárust margar og veglegar gjafir. Ekki er búið að ráðstafa öllum þeim fjármunum sem við fengum en nú í sumarbyrjun göngum við frá þeim innkaupum og í kjölfarið munum við þakka formlega fyrir okkur og þann góða stuðning og hlýhug sem fyrirtæki og félög sýndu skólanum á þessum tímamótum.

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur eins og jafnan en allir nemendur skólans komu þar fram með einum eða öðrum hætti. Þorrablótið er ætíð ánægjuleg samverustund og markið var síðan sett á árshátíðina sem helguð var H.C. Andersen og þótti hún takast sérlega vel, með virkri þátttöku allra nemenda skólans.

Maímánuður var ein allsherjarhátíð þar sem nemendur fengust við fjölbreytt verkefni, tengd sjálfbærni og umhverfisvernd, atvinnulífi staðarins, landi og þjóð, hreyfingu og síðast en ekki síst samveru og virkri þátttöku í lifandi verkefnum sem hafa mikla þýðingu fyrir okkur öll. Eitt meginverkefni vetrarins hefur verið að vinna með félagsfærni, en hana kennum við og þjálfum m.a. með aðferðum sem kenndar eru við ART en best er að æfa hana og nýta í raunverulegum aðstæðum svo sem eins og í verkefnum sem reyna á samveru, samstarf og samheldni, en námsáætlanir kennara nú í vor hafa einmitt einkennst af áherslum á þessa þætti.

Það hefur hreinlega verið unun að vera skólastjóri í Grunnskólanum í Þórshöfn nú undanfarna daga og vikur. Plastátakið skilaði mikilli umræðu á meðal nemenda og gaman var að samstarfi fyrirtækja og heimila í því verkefni. Ferðalög nemenda tókust með eindæmum vel þannig að hvergi bar skugga á. Allir nemendur skólans fóru í lengri sem skemmri ferðir og nuta samvista og lærðu eitthvað alveg nýtt. Það er t.d. gaman að segja frá því að nú hafa margir farið sína fyrstu ferð í Rauðanesið og veit ég að þær eiga eftir að verða fleiri, enda er Rauðanesið ein mesta náttúruperla okkar Íslendinga. Sömuleiðis fóru margir í sína fyrstu ferð í Steintún. Í nágrenni okkar er óendanlega falleg náttúra og í henni felast tækifæri sem Grunnskólinn hefur fullan hug á því að nýta sér á sem breiðustu grundvelli – í samstarfi við ólíka aðila. Útinám og upplifunarnám er nokkuð sem ég tel að eigi hvergi dýpri rætur í einstaklingnum en einmitt hér á Langanesi.

Vika atvinnulífsins tókst með ágætum  en þar kynntust nemendur ólíkum störfum, starfsemi sveitarfélagsins og þeir yngri kynntu sér starfsvettvang foreldra sinna. Einn nemandi okkar fór alla leið og sótti vélavarðarnámskeið – og lauk því með glæsibrag. Til hamingju með það Jón Fannar!

Skólinn fékk úthlutað plöntum frá Yrkjusjóði og það er von mín að skólinn og UMFL muni ná góðu samstarfi um gróðursetningu þeirra plantna en einnig höfum við mikinn áhuga á því að koma upp skólagörðum, hænsnakofa og nú síðast heyrði ég af miklum áhuga nemenda og a.m.k. eins kennara á því að reka hér myndarlegt geitabú í samstarfi við Inu! ;)

Svona getum við lengi talið. Hrekkjarvaka, jólastöðvar, öskudagur, 1 1 2 dagurinn, brunaæfingar og  Tónkvísl, settu allt svip sinn á skólastarfið. Nótan, uppskeruhátíð tónlistarskólanna, var tekin með stæl, svo ekki sé minnst á Skólahreysti þar sem nemendur okkar og stuðningsmenn vöktu verðskuldaða athygli og aðdáun!

Við stefnum ótrauð á þriðja árið okkar í Skólahreysti, en það hefur verið og verður áfram í boði í vali. Stefnt er að því að mæta með enn öflugra stuðningsmannalið en síðast og hafa Skólahreystisdaginn tvöfaldan skóladag og mæta alveg albrjáluð á Akureyri og rústa þessu! – Svona, svo allrar hógværðar sé gætt! Þorsteinn Ægir hefur stýrt þessu verkefni af öryggi og Skólahreystin er í hans góðu höndum.

Skólastarfið hefur því verið fjölbreytt í vetur, margt gerst, sumt gengið afbragðsvel og annað heldur verr eins og gengur en allt hefur starfið verið gefandi og lærdómsríkt. Og uppi stöndum við öll sterkari en fyrr og reiðubúnari til þess að takast á við verkefni framtíðarinnar.

En hvernig gengur skólastarfið – hvernig gengur okkur að þjónusta nemendur okkar og foreldra? – á annan hátt en með uppákomum og viðburðum? Ein leið til að meta það eru samræmd próf og niðurstöður þeirra, en þau eru lögð fyrir alla nemendur í 4. 7. og 10. bekk að hausti og þannig hægt að bera skólann saman við árangur á landsvísu, en það er afar mikilvægt fyrir lítinn skóla við nyrsta haf. Vinna þarf markvisst í því að bæta árangur skólans á þessum prófum en gæta verður að því að í litlum skóla sem okkar geta árgangasveiflur verið miklar. Jákvæð teikn eru á lofti og við höldum ótrauð áfram að bæta námsárangurinn.  

En einkunnir eru ekki allt. Til þess að meta skólstarfið sjálft nota flestir skólar Skólapúlsinn er það er matstæki sem þeir nýta til þess að leggja mat á hvernig gengur – þar fá foreldrar, nemendur og starfsfólk tækifæri til þess að tjá sig um skólastarfið. Nú höfum við tekið þátt í skólapúlsinum í tvö ár og því hægt að sjá í hvaða átt okkur miðar.

Mörg jákvæð merki eru á lofti í skólastarfinu. Starfsaðstaða nemenda og kennara hefur batnað til mikilla muna, einelti og eða áreitni á meðal starfsfólks og nemenda mælist marktækt minni á milli ára, og reyndar minni en á landsvísu og er það afar gleðilegt.

Agamál hafa batnað til mikilla muna í skólanum og má segja að nemendur telji að um algjöra kollsteypu hafi orðið í þeim efnum eftir því sem liðið hefur á skólaárið. Líðan nemenda er jafnt og þétt að batna í skólanum. Þegar litið er til starfsmannakannana og nemendakannana eru flestir þættir jákvæðir og á réttri leið en sá hópur sem er óánægðastur með skólann eru foreldrar. Þeir telja almennt að stjórnun skólans sé áfátt, upplýsingastreymi frá skólanum sé of lítið og líðan nemenda sé ekki nógu góð.

Við þessum niðurstöðum þarf að bregðast og skólinn þarf að bæta sig í upplýsingagjöf til foreldra og aðstandenda og skoða hvað liggur að baki þessum niðurstöðum. Áberandi er að fólk kallar eftir meiri stöðugleika og mikilvægasti þátturinn til þess að hann skapist er meiri stöðugleiki í kennarahópnum en  verið hefur á undanförnum árum. Það eitt myndi hafa afar jákvæð áhrif á skólastarfið og skila sér til foreldra. Bætt líðan nemenda er okkar forgangsmál og öll okkar vinna á að miða að því að öllum nemendum líði alltaf vel í skólanum sínum og finni þar til öryggis.

Þróunarverkefni

Síðast liðna tvo vetur hefur Grunnskólinn á Þórshöfn verið kraumandi pottur þróunarstarfs og starfsþróunar. Í vetur hafa starfsmenn tekið þátt í þróunarverkefnum um breytta og bætta kennsluhætti, skólanámskrárgerð og ARTþjálfun.

Í vetur höfum við innleitt ART í alla árganga skólans – sum staðar hefur það gengið vel, annars staðar heldur síður, en alls staðar finnum við að ARTið gerir gagn og hjálpar okkur við að kenna og móta æskilega hegðun. Gera okkur öll ábyrg fyrir okkar eigin hegðun og leita lausna innra með okkur sjálfum – það er nefnilega svo miklu auðveldara að breyta sjálfum okkur en öðrum – það þekkjum við öll sem höfum verið gift í einhvern tíma - ;).

Næsta vetur höldum við áfram með skólanámskrárgerðina og ARTið en einnig hlaut Grunnskólinn á Þórshöfn einn af hæstu styrkjunum sem einstakur skóli fékk til endurmenntunar – en næsta vetur munum við fá til okkar sérkennsluráðgjafa til þess að vinna með okkur að áætlun um kennslu í getublönduðum nemendahópi auk þess sem Jakob Frímann Þorsteinsson og Vanda Sigurgeirssdóttir munu vinna með okkur að bættri líðan nemenda í gegnum úti og upplifunarnám.

Olweus verður áfram með okkur í för og Uppbyggingastefnan mun læða sér hér inn smám saman en fjöldi starfsmanna ætlar á námskeið á Akureyri í haust henni tileinkað. 

Grunnskólinn á Þórshöfn er nú orðinn Skóli á grænni grein, en það er aðdragandi þess að verða Grænfánaskóli, en við erum farin að stíga okkar fyrstu skref í átt til umhverfisvænni skóla – sem er afar gleðilegt.

Okkar helsta verkefni á næstu árum er að innleiða glæsilega og metnaðarfulla skólastefnu Langanesbyggðar en það er mikill akkur fyrir alla skólana hér að hafa slíka stefnu tilbúna til þess að vinna að og eftir. Það er einnig ánægjulegt að höfundur hennar – ásamt okkur öllum, Ingvar Sigurgeirsson, hefur verið fenginn sem ráðgjafi við skólastarf hér í sveitarfélaginu, en aðkoma hans er mikill akkur fyrir skólastarf hér.

Við erum heppin hér íbúar á Þórshöfn, við eigum góða að. Háskólinn á Akureyri hefur stutt okkur með ráðum og dáðum í læsismálum, Skólaþjónusta Norðurþings styður vel við skólastarfið með reglulegum komum sínum en einnig í endurmenntunarmálum og kennarar frá HÍ eru í auknum mæli að koma hingað inn með námskeið, stuðning og fræðslu varðandi þróunarstarf í skólanum. Það er ómetanlegt fyrir fámennan skóla, langt í burtu frá flestum námskeiðsstöðum að fá til sín góða ráðgjafa. Velferðar og menntamálaráðuneytið hefur einnig stutt við skólann á ýmsan hátt, t.d. með því að fella niður allan kostnað vegna Olweusar, kennsluráðgjafar vegna nýbúa og svo mætti áfram telja.

Hér höfum við það sem þarf. Hér mun skólastarf bara styrkjast í framtíðinni!

Nú langar mig til þess að við beinum sjónum okkar að hinum ágætu nemendum okkar. Krakkar nú er bara að skella á sumarfrí – ég hlakka til þess að sjá ykkur í Hafnarlæknum, eða bruna um bæinn með veiðistangir á bakinu, skítug eftir mótorkrossævintýri, nú eða sprangandi um götur bæjarins bara til þess að sýna sig og sjá aðra. Ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars og ég hlakka mikið til þess að fá ykkur aftur til mín í skólann í haust – ég veit að þið eruð ekki eins spennt – en þannig er það nú samt.

 Image

 Nú er það svo að á hverju ári koma nýir nemendur inn sem er ákaflega gleðilegt en skuggahliðin á því er að við missum frá okkur reynsluboltana okkar – 10. bekkingana – sem hafa nú lokið sinni grunnskólagöngu og halda á vit ævintýranna. – Frekara náms eða vinnu.  Kæru 10. bekkingar – komið hingað upp.

Image

Ég vil þakka ykkur fyrir samfylgdina í þau tvö ár sem við höfum þekkst. Það hefur verið gaman og um leið lærdómsríkt að vera skólastjórinn ykkar. Ég óska ykkur alls hins besta í framtíðinni og ég hlakka til þess að fá að fylgjast með ykkur. Elín sendir ykkur öllum sínar bestu kveðjur, hún er með okkur í anda hér í dag en nú gef ég í tilefni af útskrift ykkar færir skólinn ykkur litla gjöf.

Kæru þið – nú hafið þið lokið ykkar grunnskólanámi. Til hamingju með það. Gefið þeim gott klapp út í lífið!

Starfsmannamál

Image

Það er afar gleðilegt frá því að segja að búið er að manna skólann næsta vetur – og við erum svo ljónheppin að halda í flesta okkar kennara, þó sumir séu þó á leið frá okkur. Mig langar til þess að biðja ykkur öll, sem hafið unnið við skólann sem launþegar og munið starfa við skólann næsta vetur að koma hingað upp.

Það er mér mikil ánægja að Líney ætlar að vera áfram með bókasafnið næsta vetur og vonandi munum við geta haft það enn meira opið fyrir skólann en verið hefur í vetur.

Sveinbjörg heldur áfram hjá okkur og mun sinna kennslu á yngsta stigi auk Sigríðar Klöru sem kemur aftur til starfa nú í 70% stöðu eftir að hafa verið í fæðingarorlofi. Ásdís Hrönn verður umsjónarkennari  5. – 6. bekkjar á næsta ári, en það verður stór og kraftmikill hópur. Auk þess verður hún í hálfu starfi sem aðstoðarskólastjóri. 5. g 6. bekkur verða í Grenjanesi – eða stofunni sem er beint á móti Námsverinu nýja.

Image

Hanna María verður með umsjón í 7. – 9. bekk en þau verða í innstu stofunum tveimur. Árni Davíð kemur aftir til starfa úr ársleyfi, en hann mun vera með umsjón í 10. ekk – en þau verða í stofunni við hliðina á Myndmenntarstofunni.

Að auki verða með okkur í fullu starfi, Petra, Hrafngerður og Þorsteinn Ægir. Í hálfu starfi eða þar um bil verða Þóra Guðrún, Ina og Kristín Jónsdóttir. Að auki munu starfa við skólann Monika í ræstingum, Lilja Jóns sem stuðningsfulltrúi í matsal og íþróttahúsi, Lilja Ólafs sem stuðningsfulltrúi í námsveri og  Páll sem stuðningsfulltrúi með 5. og 6. árgangi. Frekari mönnun stuðningsfulltrúa kemur í ljós á næstu vikum. Vilborg verður ritari okkar og umsjónarmaður tölvukerfis skólans.

Við kveðjum nú Hebu eftir tveggja ára starf við skólann, kærar þakkir elsku Heba fyrir samstarfið og samvinnuna og farnist þér vel á nýjum slóðum. Hrefna Ýr er farin í fæðingarorlof og lítils drengs er að vænta á hverri stundu, við óskum henni alls hins besta og hlökkum til þess að fá hana til okkar á ný! Elín kom eins og frelsandi engill á miðjum vetri og við þökkum kærlega hennar góða starf. Lára Björk kemur vonandi aðeins til okkar næsta haus, en annars er hún á leið í fæðingarorlof og sömuleiðis er ekki víst hvort Sandra verði áfram með okkur. Staða húsvarðar hefur verið lögð niður við skólann og vil ég nota þetta tækifæri til þess að þakka Sölva störf hans fyrir GÞ á liðnum árum.

Að auki við þann hóp sem þið sjáið hér, hefur Karen rekið mötuneyti skólans með miklum myndarbrag – og nýtur matur hennar fáheyrðra vinsælda hjá nemendum og starfsfólki!

Mig langar til þess að fá hingað upp góðan samferðamann – sem ekið hefur kynslóðum hingað í skólann í heila þrjá áratugi. Indriði Kristjánsson égþakka þér kærlega fyrir ánægjulegt samstarf og mikla lipurð við börn sem starfsfólk. Sem þakklætisvott vil ég afhenda þér þessa klukku.

Image

Kristin Thorberg hefur verið okkar skólahjúkrunarkona í vetur og vil ég þakka henni kærlega fyrir samstarfið í vetur.

Nú að athöfn lokinn er sýning á handverki nemenda í skólanum.

Þar er einnig mikið af fatnaði, sem og í Veri sem nemendur hafa skilið eftir í skólanum eða íþróttahúsinu. Foreldrar eru hvattir til þess að líta á fatastæðurnar áður en góssið verður sent til Rauða krossins.

Nemendur mega taka gripina sína heim eftir klukkan sjö í kvöld.

Og þar með segi ég skólanum slitið vorið 2014 – húrra fyrir okkur!

Þórshöfn 30. maí 2014

Í miklu blíðskaparveðri.