Skáksveit Grunnskólans á Þórshöfn (GÞ) tók þátt í Íslandsmóti barnaskólasveita í skák sem fram fór síðastliðna helgi. Sveitin, skipuð fjórum efnilegum skákmönnum, stóð sig með mikilli prýði.
Skáksveitina skipa Benedikt Jósep Halldórsson, Ingvar Smári Albertsson, Jakob Ingi Árnason og Sigurbergur Freyr Axelsson.
Í mótinu kepptu alls 36 sveitir frá ýmsum skólum landsins og var samkeppnin hörð. Skáksveit GÞ lék alls 32 leiki og náði að vinna 15 þeirra auk þess að ná jafntefli í einum leik. Þessi árangur skilaði sveitinni 22. sæti í heildarkeppninni en sérstök verðlaunaafhending var fyrir sveitir af landsbyggðinni og þar náði skáksveit GÞ að tryggja sér 3. sætið.
Ferðin til höfuðborgarinnar var nýtt til fjölbreyttrar afþreyingar fyrir nemendur. Hoppað var í tvo tíma í Skopp, gagnvirka náttúrusýningin á Íslandi í Perlunni var skoðuð og vakti íshellirinn þar mikla lukku. Eftir krefjandi keppnisdag kíkti hópurinn í sund og á leikvöll.
Þátttaka í mótinu var mjög lærdómsrík reynsla fyrir nemendur en undirbúningur var ekki síður lærdómsríkur þar sem við fengum til okkar nokkra sterka skákmenn af svæðinu til að tefla við nemendur okkar og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.
Stutt er í næsta skákmót en Svæðismót í skólaskák fyrir Norðurland eystra verður haldið á Akureyri þann 4. apríl og eru þessir sömu nemendur okkar skráðir þar til leiks.
Hér má sjá frétt á síðu Skáksambands Ísland um keppnina: Rimaskóli Íslandsmeistari barnaskólasveita | Skak.is
Myndir frá undirbúningi og úr ferðalaginu:
Langanesvegi 20 | 680 Þórshöfn Sími kennarastofu 468-1454 Sími skólastjóra 468-1164 |
|
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda:
Árni - 468-1454 arni@thorshafnarskoli.is
Hilma - 468-1164 hilma@thorshafnarskoli.is