Ólympíuhlaup ÍSÍ


Eftir hvíldardag nemenda á morgun finnst okkur upplagt að drífa alla í ólympíuhlaup á fimmtudagsmorgun!

Lagt verður af stað frá skólanum kl. 10 og vegalengdir sem velja má um eru 2,5 km, 5 km og 10 km.
Það verður vatn í boði á 5 km stöðinni og vatn og ávextir á 10 km stöðinni.

Ólympíuhlaup ÍSÍ, áður Norræna skólahlaupið, hefur verið fastur liður í skólastarfi margra grunnskóla allt frá 1984 þegar það fór fyrst fram.
Með hlaupinu er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og líðan.

Góð þátttaka hefur verið í hlaupinu frá upphafi og er það fastur liður í skólastarfi margra grunnskóla á landinu. Ólympíuhlaupið er liður í Íþróttaviku Evrópu og er hlaupið formlega opnað í einum skóla ár hvert og í ár var hlaupið formlega opnað 5.september í Borgarhólsskóla á Húsavík.

Þrír skólar, sem ljúka þátttöku í hlaupinu fyrir 10. október og skila inn upplýsingum til ÍSÍ eru dregnir út. Hver þeirra þriggja skóla fær 150.000 króna inneign í Altis, en Altis selur vörur til íþróttaiðkunar sem nýtast nemendum á skólalóðinni eða í íþróttahúsinu.