Möguleikhúsið - Eldbarnið leiksýning fyrir 1. - 10. bekk

Föstudaginn 18.september kl. 8:30 fáum við heimsókn frá Möguleikhúsinu, en það mun flytja okkur leiksýninguna "Eldbarnið".Hvernig bregst lítil stúlka við þegar veröldin umturnast vegna ógnvænlegra náttúruhamfara? Sólveig er söguhetjan í þessu nýja leikriti Möguleikhússins. Eftir gríðarlega jarðskjálfta verður stórt eldgos og skömmu seinna steypist hraunstraumur ofan af hálendinu. Sólveig og móðir hennar verða að flýja upp í fjallshlíð, þaðan sem þær horfa á bæinn sinn fara undir hraun. Við tekur ný og gjörbreytt tilvera, flótti og leit að húsaskjóli. Sólveig lendir í ævintýralegum aðstæðum sem hljóma fjarstæðukenndar fyrir íslenskum börnum í dag en voru raunverulegar á þessum tímum. Hér heldur Möguleikhúsið áfram umfjöllun um mannlíf í kjölfar Skaftárelda og Móðuharðinda, en áður sýndi það einleikinn Eldklerkinn sem hlaut afburðagóðar viðtökur. Að þessu sinni eru atburðirnir skoðaðir frá sjónarhóli ungrar stúlku í nýju barnaleikriti sem ætlað er áhorfendum frá 8 ára aldri. Sýningin hentar einkar vel fyrir nemendur á miðstigi grunnskóla, ekki síst þeim sem eru að læra um Skaftárelda og Móðuharðindi.