Hið illa – því varð aldrei burtu þokað
úr innsta leyni þínu, hefst þar við
og hlustar, líkt og í svefni, á sogandi nið
sjávargangsins, þegar bjargið er lokað.
Vakir í dýpi dökkra hengifluga
djúpt að baki fuglanna kviku þröng
svo leynt og djúpt að engan yfirsöng
bar alla leið sem mætti slæva það, buga.
Oft þá varir sízt og sólin til þín
siglir rauðum voðum, úr hafi stigin
og lyftist þú í ljós morgunsins, tigin –
birtist hið illa, brýtur upp klettana! Skín
hið brýnda vopn sem digrar krumlur hampa.
Slær um iðandi björgin beittum glampa!
Hannes Pétursson |
Hér er vísað til heimsóknar Guðmundar góða bískups í Drangey væntum við en þjóðsagan um þá heimsókn er mörgum kunn. Á nams.is má finna þennan útdrátt sögunnar.
Fuglabjörg voru mikil búbót fyrrum. Á vorin þegar oft var lítið að hafa matarkyns eftir langan vetur var líf að kvikna í björgunum og fuglar að verpa eggjum í þúsundavís. Þangað var hægt að sækja björg í bú. Það var hins vegar hættulegt að síga í björgin. Oft sáust menn ekki fyrir og slys voru tíð við eggjatöku.
Guðmundur góði Arason biskup var fenginn til að vígja fuglabjörg Drangeyjar ef það gæti orðið til þess að fækka slysum. Hann seig í björgin allt í kringum eyna og skvetti vígðu vatni á klettana. Hann var kominn langleiðina hringinn í kringum eyna og hékk í kaðli við að vígja bjargið. Þá kom grá og loðin loppa út úr bjarginu. Hún hélt á stórum hnífi og reyndi með honum að skera á kaðalinn sem Guðumundur hékk í. Um leið heyrði Guðmundur að sagt var: „Vígðu nú ekki meira, Gvendur biskup: einhvers staðar verða vondir að vera.“ Hnífurinn beit hins vegar ekki á kaðalinn og Guðmundur komst aftur upp á bjargbrúnina.
Þangað kominn sagðist Guðmundur myndi skilja þennan hluta bjargsins eftir óvígðan. Hann ráðlagði mönnum að halda sig frá honum og þá myndi þeim farnast vel við eggjatöku. Gekk það eftir.