Jólagluggamyndir Grunnskólans á Þórshöfn

Nú þegar jólin nálgast eru íbúar Þórshafnar því vanastir að líta augum vel skreytta glugga Grunnskólans. Myndirnar hafa prýtt gluggana í rúm 30 ár og því ekki að undra að þær hafi skapað sér sess í jólamenningu Þórshafnar.

Það er hins vegar svo að myndirnar eru margar hverjar orðnar mjög illa farnar og erfitt og jafnvel illmögulegt er að setja þær upp. Mikla vinnu þarf að leggja í að endurgera þær, laga og betrumbæta og er sú vinna varla á færi barna og unglinga.

Við höfum því ákveðið að myndirnar verði ekki settar upp í ár heldur verði þær geymdar og vinna lögð í að endurgera þær og laga á næsta ári.

Hér er komið gott tækifæri fyrir Hollvinasamtök Grunnskólans að koma að málum, íbúana, starfsfólk og nemendur Grunnskólans  næsta haust. Þannig eignast allir hlutdeild í þessum fallega og góða jólasið.

Vonandi sjáumst við sem flest í jólamyndagerðinni næsta haust!

Þangað til verða jólaljósin að duga!