Í öllum bænum skellið á krakkana endurskinsmerkjum

Á hverjum morgni hugsar skólastjórinn með sér hve myrkrið sé dimmt og skyggnið lítið. Stundum er næstum eins og bíllinn sé ljóslaus! Það sést bara ekki neitt! Og ekki heldur blessuð börnin... Í morgun glitti þó í eitt þeirra, - einfaldlega vegna þess að það voru endurskinsrendur á stígvélunum og á úlpunni, það gerði gæfu muninn. Á vef Landsbjargar má lesa eftirfarandi: Alltof fáir vegfarendur nota þennan litla en lífsnauðsynlega búnað. Raunin en nefnilega sú að ökumaður sem ekur á 60 km hraða þarf um það bil 37m til að stöðva bílinn ef undirlagið er þurrt. Ökumenn sjá vegfarendur með endurskinsmerki úr 120-130 m fjarlægð en sá sem hefur ekkert endurskin sést úr 20-30m fjarlægð. Börnin okkar eru það mikilvægasta sem við eigum og við viljum að þau sjáist í umferðinni. Til að þau noti endurskinsmerki þarf fullorðna fólkið að sýna fyrirhyggju og vera fyrirmyndir. Slysavarnafélagið Landsbjörg hvetur alla til að huga að öryggi sínu og barnanna og nota endurskinsmerki. Sjáumst í umferðinni