Erindi á vegum Heimilis og skóla mánudaginn 28. september

Á mánudaginn 28. september klukkan 20:30, verður erindi á vegum Heimilis og skóla (væntanlega í Þórsveri). Við fögnum komu fulltrúa þeirra hingað til okkar og vonandi komast sem allra flestir þetta kvöld, því sagan sannar að gott samstarf er lykillinn að árangursríku skólastarfi. Í fyrirlestrinum verður farið yfir mikilvægi og ávinning af góðu samstarfi milli heimilis og skóla. Farið verður yfir starf bekkjarfulltrúa, hlutverk þeirra og komið með góðar hugmyndir. Farið verður yfir helstu samskiptaleiðir innan skólans ef foreldrar vilja fá eða veita öðrum upplýsingar og fleira. Einnig verður fjallað um netnotkun barna og unglinga þar sem er farið yfir einkenni tælingarmála og hvað beri að varast í samskiptum við ókunnuga, hvað sé hægt að gera ef grunur vaknar um tilraun til tælingar og hvert sé hægt að leita. Eins fá foreldrar fræðslu um birtingarmyndir rafræns eineltis og alvarlegar afleiðingar óvarlegra samskipta og myndbirtinga á netinu, farið verður yfir slæm áhrif ofnotkunar á tölvum og neti auk þess sem bent er á leiðir til að koma netnotkun í jákvæðari farveg. Einnig verður fjallað um ýmsar tæknilegar lausnir, eins og síur, öryggisforrit og fleira. Við væntum þess að sjá sem flesta.