Dagur íslenskrar tungu: Skáld okkar í ár er Hannes Pétursson

Frá verðlaunaafhendingunni 2012. Hannes Pétursson og Katrín Jakobsdóttir þáverandi Mennta og menningarmálaráðherra. Á undanförnum árum hefur verið hátíð hér við skólann vegna Dags íslenskrar tungu sem er 16. nóvember ár hvert, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Af því tilefni veitir Mennta og menningarmálaráðuneytið verðlaun árlega sem renna til skálda. 2012 vann Hannes Pétursson þessi verðlaun en hann er einmitt skáld hátíðarinnar okkar í ár. Hannes er sérstaklega ,,ljúfur" í mörgum ljóðum sínum, og börn skilja oft á tíðum ljóð hans ágætlega. Viðfangsefni hátíðarinnar okkar í ár verður náttúran, árstíðir, lífið og langanir í ljóðum Hannesar. Hátíðin fer fram fimmtudaginn 13. nóvember og hefst klukkan 17:00 í Þórsveri. Nemendur lesa ljós, gestir lesa ljóð - upphátt eða í hljóði, það er val hvers og eins ;). Léttar veitingar verða í boði. Athöfnin verður um klukkustundar löng.  

Í rökstuðningi sem fylgdi verðlaununum hans Hannesar árið 2012 segir þetta:

„Hannes Pétursson fæddist á Sauðárkróki 14. desember 1931 og var því aðeins 24 ára þegar hann kvaddi sér hljóðs með Kvæðabók sinni sem út kom 1955. Tóku almennir lesendur og gagnrýnendur bókinni svo fagnandi að mörgum þótti sem annað eins hefði ekki gerst síðan Davíð Stefánsson gaf út Svartar fjaðrir 1919. Einn ritdómari komst svo að orði að það sætti miklum tíðindum „þegar fullþroskað og stórbrotið skáld kemur formálalaust inn í bókmenntirnar“. Ekki var innkoman þó formálalaus með öllu því Hannes var þá þegar vel þekktur meðal ljóðaunnenda af ljóðum sem birst höfðu í blöðum og tímaritum og í Ljóðum ungra skálda 1954. Ætíð síðan hefur hann verið ljóðinu trúr og ljóðabækur hans hafa jafnan vakið mikla og verðskuldaða athygli. „Þú sameinar svo margt sem þarf að sameina“ sagði Steinn Steinarr við Hannes ungan enda hefur hann löngum verið kallaður brúarsmiður í íslenskri ljóðagerð og má það til sanns vegar færa þó sjálfur hafi hann að eigin sögn aldrei unnið markvisst og meðvitað að neinu slíku. Með þessu heiti er á það bent að ljóð hans hafi löngum verið sem brýr milli hefðar og nútíma, standi föstum fótum í íslensku umhverfi, náttúru og sögu en fáist þó engu að síður iðulega við vanda okkar hér og nú. Að auki byggja þau mjög á íslenskri kveðskaparhefð, jafnt að formi sem efni, þó fæst þeirra séu ort undir föstum bragarháttum. Langflest þeirra eru fríljóð þar sem skáldið beitir gjarna stuðlasetningu og þótt rími bregði fyrir er það sjaldnast reglubundið. Í hina röndina, við hinn brúarsporðinn eru ljóð hans beintengd miðevrópskri, einkum þýskri ljóðahefð, enda stundaði Hannes háskólanám í Þýskalandi í  tvö ár að loknu stúdentsprófi en settist eftir það í Háskóla Íslands og lauk cand. mag. prófi í íslenskum bókmenntum 1959. Ljóðmál sitt hefur Hannes þróað jafnt og þétt, haldið persónulegum einkennum sínum en jafnframt ævinlega verið reiðubúinn að brjótast úr vanaböndum og nema ný lönd. Mikil endurnýjun kom til að mynda fram í bókum eins og Heimkynnum við sjó (1980) og 36 ljóðum (1983) og enn hefur hann sótt fram á ný mið í nýjustu ljóðabókum sínum Eldhyl (2003) sem færði honum íslensku bókmenntaverðlaunin og Fyrir kvölddyrum (2006). Hannes var um árabil starfsmaður Menningarsjóðs og vann þar að margvíslegum útgáfumálum og ritstjórn. Hann hefur einnig fengist nokkuð við þýðingar. Merkur þáttur í höfundarstarfi hans birtist einnig á sviði fræðimennsku. Hann hefur lyft hinum þjóðlega sagnaþætti á nýtt listrænt plan í bókum eins og Rauðamyrkri (1973) og heimildaþáttaritsafninu Misskipt er manna láni (1982-87). Í þessum bókum birtist hann einnig sem mikill meistari óbundins máls og sama gildir um fræðirit hans um skáldskap. Hann gaf til dæmis út rómaða bók um Steingrím Thorsteinsson, líf hans og list (1964) og einnig má nefna Kvæðafylgsni (1979) en sú bók varð til þess að skerpa mjög sýn manna á  skáldskap Jónasar Hallgrímssonar og efla áhuga á honum meðal bókmenntamanna og almennra lesenda. Enn einu sinni gerðist Hannes síðan brúarsmiður með bók sem kom út 2011 og hann nefndi Jarðlag í tímanum, minningamyndir úr barnæsku. Þar lýsir hann af fágætri stílsnilld uppvexti sínum í Skagafirði á árunum fyrir og í seinna stríði.“ Heimild frétt mbl.is af verðlaunaafhendingunni.