Háskólalestin nálgast Þórshöfn

Í dag fengum við góða gesti til okkar frá Háskólalestinni og Háskóla unga fólksins. Tilgangur heimsóknarinnar var að kanna aðstæður fyrir stóru dagana 22. og 23. maí en þá verður sannkölluð þjóðhátíðarstemmning hér á Þórshöfn. Guðrún Bachman skoðaði sig hér um og leist vel á allar aðstæður. Hún kemur eftir réttan mánuð aftur og þá með alla lestina með sér, vísindagögn og 15 vísindamenn! Háskólalestin býður upp á vísindaveislu fyrir alla íbúa skólahverfa Grunnskólans á Þórshöfn og Grunnskólans á Bakkafirði. Mikið verður um dýrðir bæði á föstudag og laugardag. Föstudaginn 22. maí verða vísindastöðvar í Grunnskólanum á Þórshöfn þar sem nemendur í 5. - 10. bekk fá að velja um þrjár stöðvar til að vinna á þann daginn og á laugardaginn verður stórskemmtileg hátíð þar sem öllum íbúum, ungum sem öldnum er boðið til vísindaveislu. Nánar verður þetta auglýst síðar en þið skuluð svo sannarlega taka daginn frá því svona tækifæri býðst ekki á hverjum degi!