Olweusaráætlun gegn einelti

Grunnskólinn á Þórshöfn – um einelti

Einelti af öllu tagi er ekki liðið í GÞ og samrýmist ekki gildum og áherslum í skólastarfinu. Allra leiða er leitað til þess að fyrirbyggja það og bregðast við því á skipulegan hátt. Að vinna gegn einelti er langtímaáætlun sem byggir á skipulegu forvarnarstarfi, jákvæðum skólabrag og góðum bekkjaranda.

bullying1

Hvað er einelti?

Einelti er ofbeldi og getur verið andlegt og/eða líkamlegt.
Andlegt einelti felur í sér að nemandi er tekinn fyrir af einum eða fleiri nemendum með síendurtekinni stríðni, látbragði, niðrandi ummælum, sögusögnum, andlegri kúgun, ýmisskonar hótunum, líkamlegri höfnun, markvissri einangrun eða útskúfun. Rafrænt einelti á meðal grunnskólabarna verður algengara eftir því sem tækjaeign og notkun barna og unglinga verður almennari.
Í líkamlegu einelti felst hverskonar líkamleg áreitni, barsmíðar, hrindingar, spörk, hártoganir og klíp.
Um einelti er að ræða þegar einhver er síendurtekið tekinn fyrir.
Hverjir verða fyrir einelti?
Engar rannsóknir hafa afgerandi sýnt fram á að þeir sem verða fyrir einelti séu á neinn hátt frábrugðnir öðrum nemendum. Hins vegar má leiða að því líkur að viðkvæmir nemendur t.d. með námserfiðleika, með einhverskonar fatlanir, með geðræna erfiðleika eða þeir sem búa við erfið uppeldisskilyrði séu í áhættu ef mikið er um hegðunarvandamál og einelti í skólum. Strákar eru oftar lagðir í einelti en stelpur en oftast er þó um tilviljun að ræða hver verður fyrir því.

Hverjir leggja í einelti?

Gerendur í einelti eru umfram önnur börn árásarhneigð og hafa jákvætt viðhorf til ofbeldis og ofbeldisverka. Þessi börn eru oft skapbráð og vilja ráða yfir öðrum. Þau eru yfirleitt vinsæl meðal félaganna þrátt fyrir að hafa litla tilfinningu fyrir líðan annarra. Öfugt við það sem áður var haldið fram, af sálfræðingum og barnageðlæknum, að þessir nemendur séu í raun hræddir og óöruggir undir yfirborðinu, hefur komið í ljós við athuganir að þeir eru yfirleitt öruggari með sig en jafnaldrar þeirra
Bæði strákar og stelpur leggja í einelti. Þó er kynjamunur á aðferðum því strákar sameinast oft margir um að leggja ákveðinn nemanda í einelti og nota oftar líkamlegt ofbeldi. Stelpur beita fremur vinkonuhöfnun þ.e. vinkonurnar ákveða að einhver sé ekki viðurkennd í hópnum.
Rannsóknir hafa sýnt að beinir gerendur í einelti eru færri en þolendur og því á hver og einn gerandi fleiri en eitt fórnarlamb. Oft er hópur af öðrum börnum sem aðstoðar við að kvelja aðra. Þeir eru stundum með og stundum ekki en taka þátt til að koma sér í mjúkinn hjá forsprökkunum eða til að verða ekki sjálfir fyrir barðinu á þeim. Óvirkir gerendur eru þeir sem ekki taka afstöðu á móti einelti og eru þannig þátttakendur í að viðhalda ástandinu.

Hvernig geta foreldrar og kennarar komið auga á eineltið
Mörg börn segja ekki frá og eru hrædd um að ástandið versni við það. Ef t.d. barnið vill ekki fara í skólann, fer að ganga illa í skólanum, týnir bókum, hlutum eða fötum, forðast vini og önnur börn, er með skrámur eða marbletti sem ekki er hægt að skýra eða sýnir breytta hegðun heima fyrir, þá er ástæða til þess að athuga hvort einelti geti verið skýrningin.

Hvað geta foreldrar gert ef barnið er lagt í einelti?
Fyrsta skrefið er að fá barnið til þess að segja frá. Þar næst á að hafa samband við umsjónarkennara barnsins í skólanum sem þegar í stað kannar alvarleika eineltisins. Fullvissaðu barnið um að einelti sé ekki liðið í skólanum og tekið verði á málunum.

Hvernig bregst skólinn við?

GÞ hefur fyrir nokkrum árum verið þátttakandi í Eineltisáætlun Olweusar og því gert kannanir á umfangi eineltis meðal nemenda skólans. Í fyrra fór skólinn aftur af stað að vinna nákvæmt og markvisst eftir áætluninni. Vissulega gengur á köflum hægar en við vildum en engu að síður er ánægjulegan árangur að sjá í könnunum sem lagðar voru fyrir. Í fyrra mældist um 17% einelti í GÞ en haustið 2014 var það komið niður í 3%. Í eineltiskönnunum hérlendis hefur komið í ljós að u.þ.b. 10% nemenda í grunnskólum segja að þeir séu hrekktir eða skildir útundan nokkrum sinnum í viku eða daglega.

Einelti er reglulega tekið til umræðu innan skólans, bæði meðal nemenda og kennara. Unnið er stöðugt að því að efla samskiptahæfni nemenda. Það er m.a.gert með því að fjalla um eineltismál á vettvangi sem flestra námsgreina.
Skólapúlsinn mælir einnig einelti og ART er mikilvægt tæki til þess að kenna nemendum okkar félagsfærni.

Þegar talið er að nemandi sé lagður í einelti berast upplýsingar til umsjónarkennara sem ber ábyrgð á aðgerðum gegn einelti í sínum umsjónarbekk. Hann gengur úr skugga um hvort um einelti sé að ræða en ekki félagsleg átök af öðrum toga. Slík athugun getur verið samtöl við nemendur, foreldra, aðra kennara eða aðra starfsmenn skólans. Ef nemandi er lagður í einelti eru tekin viðtöl við þá sem leggja í einelti, viðtöl við þann sem lagður er í einelti og eftir alvarleika málsins foreldra viðkomandi gerenda og þolenda. Ef umsjónarkennari hefur ekki náð árangri getur hann vísað málum til eineltisteymis sem heldur áfram með málið.

Vísun máls til fagráðs eineltismála

Foreldrar og stjórnendur grunnskóla geta vísað til fagráðsins eineltismálum sem þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og aðkomu sérfræðiþjónustu hefur ekki tekist að leysa innan skóla og sveitarfélags.

 

Fengið frá Grunnskóla Borgarnes mars 2014 af vef Olweusaráætlunarinnar á Íslandi. Eilítið aðlagað IE