Sagan í stuttu máli

Úr ávarpi skólastjóra í tilefni 80 ára afmæli skólans þann 13. október 2013.

Þann 21. október 1933 var í fyrsta sinn settur skóli  hér á Þórshöfn

skoli2

Formleg menntun barna hér, á sér þó miklu lengri sögu en Farskóli Langaness sinnti henni allt frá 1908 og var hann starfræktur í 60 ár á bæjum hér á nesinu, m.a. á Skálum og síðustu árin á Sauðanesi og Efra Lóni.

Herðurbreið hýsti Þórshafnarskóla fyrstu starfsárin, en hún stóð þar sem nú er Bakkavegur 1. Hátt og reisulegt hús sem þótti bera af öðrum húsum í bænum. Herðubreið brann 1977 og hefur vafalítið verið missir af því húsi fyrir bæjarmyndina hér á Þórshöfn

Skólinn var á nokkrum hrakhólum með húsnæði fyrstu árin, en um tíma var kennslan í húsi Ungmennafélagsins, Sólbakka  sem stóð þar sem Þórsver er í dag, en Sólbakki brann 1956.

Sólbakki hafði verið fluttur frá Skálum og Ungmennafélagið var þar með aðstöðu og mér virðist sem húsið hafi verið nýtt sem félagsheimili staðarins.

Húsnæðismál skólans komust í betri farveg er elsti hluti Grunnskólans var tekinn í notkun haustið 1945 og hefur það vísast verið mikil lyftistöng fyrir allt skólahald á staðnum.  Við skólann hefur verið byggt þrisvar sinnum, annar hlutinn er tekinn í notkun 1961, 1980 er álman til suðurs tekin í notkun og líklega er það í kringum 1996 sem syðsti hluti skólans bætist við, en þar eru unglingarnir okkar með aðsetur í dag.

Fyrsti skólastjórinn á Þórshöfn hét Helga J. Elíasdóttir og var hún kennari, en maður hennar Óli P. Möller hafði þá verið leiðbeinandi  við farskólann varð tveimur árum síðar skólastjóri og var það allt til ársins 1956 þegar  sonur þeirra hjóna tók við skólastjórn, Pálmi Ólason þá nýútskrifaður í Kennaraskólanum.

Pálmi og foreldrar hans eru órjúfanlegur hluti skólasögu Langanesbyggðar, en allt frá því Óli kom hingað fyrst til starfa 1927 við farskólann til ársins 1996 sinntu þau hér kennslu og skólastjórn.

Pálmi Ólason var skólastjóri hér í 40 ár og mörg ykkar sem hér eruð í dag þekkið vel til Pálma heitins, en ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka fyrir hönd  Grunnskólans  á Þórshöfn þetta langa starf Pálma og fjölskyldu hér í þágu menntunar. Þau voru kjarni skólastarfsins hér því þá líkt og nú var oft á tíðum erfitt að manna skólann.

Á þessum tímamótum sendir Grunnskólinn á Þórshöfn eftirlifandi konu Pálma, Elsu Þórhildi Axelsdóttur eilítinn þakklætisvott fyrir starf í þágu skólans, en það er áritaður skjöldur með kveðju frá Langanesbyggð.

Tíð kennaraskipti hafa einkennt skólasögu Langaness, en nokkrir kennarar hafa þó verið hér í 10 ár eða meira og má þar til dæmis nefna konur sem enn  er minnst hlýlega af mörgum gömlum nemendum sínum, Dagnýju Marinósdóttur og Berghildi Björgvinsdóttur er einnig mörgum minnistæð og Erla Jóhannsdóttir starfaði hér einnig lengi farsællega við skólann. Heiðrún Óladóttir og Árni Davíð Haraldsson eru öllum hér inni af góðu kunn og hafa verið hér lengi við kennslu. Þessu fólki sem og öðrum sem kennt hafa og starfað við skólann eru færðar hér bestu þakkir fyrir!

Margt hefur breyst á þeim 80 árum sem liðin eru frá stofnun skólans, en þó ekki. Enn er kennd landafræði, saga og náttúrufræði. Reikningur og réttritun eru einnig á sínum stað og grunnurinn að þessu öllu – lesturinn er nú líkt og þá efstur á blaði.  Og sumir segja meira að segja að kennsluhættirnir hafi ekki svo mikið breyst svo mikið heldur. Kennslan sé enn bókamiðuð og einsleit, en víst er að mikill vilji er í íslenska skólakerfinu til þess að færa kennsluhættina nær þeim börnum sem við höfum í skólunum okkar í dag og starfsfólk skólans okkar er sömuleiðis þess albúið að takast á við áskoranir nútímans með bjartsýnina að leiðarljósi.

Grunnskólinn á Þórshöfn býr um margt við einstakar aðstæður. Hér er stutt í alla þjónustu, íþróttaaðstaðan er til fyrirmyndar, atvinnulífið er hér blómstrandi og þess albúið að vinna með skólanum. Höfnin hér iðar af lífi og heiðar og sléttur ala af sér fallegt fé enda mörg og blómleg sauðfjárbú hér allt í kringum okkur. Forystufé er hér landsfrægt og unnið er að stofnun sérstaks seturs því til heiðurs hvað þá annað.

Einstakt fuglalíf og náttúra einkennir allt umhverfi okkar, saga hernáms á Íslandi er hér allt um kring að ógleymdum eyðijörðum sem færa okkur andblæ liðins tíma – tíma sem er svo skammt undan en þó svo fjarri.

Það er skylda okkar sem störfum við skólann í dag, að líta til þessara auðlinda og nýta þær í öllu okkar starfi. Langnesingar og Þistlar eru stoltir af uppruna sínum og heimabyggð enda full ástæða til.

Það er von mín að á næstu misserum auðnist okkur að byggja hér upp skóla sem stendur traustum fótum á einstökum stoðum mannslíf og náttúru þessa svæðis.

Hér er gott að vera, hér eru verkefnin næg, efniviðurinn frábær og sóknarfærin ótal mörg.

Ég býð ykkur hjartanlega velkomin til þessarar afmælishátíðar okkar þar sem þið fáið að sjá brot af því sem nemendur okkar eru að fást við dags daglega auk þess sem við skyggnumst inn í fortíðina.

Að lokum vil ég þakka starfsfólkinu mínu öllu fyrir frábært starf í aðdraganda þessa dags. Það hefur verið gaman að vinna með ykkur að þessari afmælishátíð. Krakkar þið hafið tekið virkan þátt, sett saman dagskrá, búið til borðskraut, blásið í blöðrur, þrifið skólann – já og sett saman þessa frábæru dagskrá sem verður hér í dag!

Ekki síður vil ég þakka frábæran stuðning Hollvinasamtaka Grunnskólans á Þórshöfn, þeir hafa verið einstakir og komið með veglegum hætti að þessum degi. Það er sannarlega gott að eiga góða vini.

Ísfélagið hefur nú sem svo oft áður stutt dyggilega við bakið á okkur í tilefni þessa merka áfanga og þakka ég það af alhug,við eigum einnig alltaf hauk í horni þar sem Samkaup er og þar eru allir boðnir og búnir til þess að aðstoða okkur og styrkja. Hamar lagði einnig hönd á plóginn og svona mætti lengi telja. Grunnskólinn á Þórshöfn er ríkur skóli, hann á góða vini, öfluga foreldra, gott starfsfólk og frábæra nemendur.

Einskis frekar er hægt að óska sér á tímamótum sem þessum.

Til hamingju með skólann ykkar góðir gestir og góða skemmtun!

Ingveldur Eiríksdóttir

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s