Skólahreysti er mannbætandi

Skólahreystishefð Grunnskólans á Þórshöfn hefur vaxið og dafnað á þeim fjórum árum sem við höfum tekið þátt. UMFL gaf skólanum búnað til æfinga og skólinn tók verkið að sér og sinnir því af fullri einurð!

Krakkar í 5. – 10. bekk eru hvattir til að mæta á undanúrslitakeppnina á Akureyri og hvetja sitt lið.  Skólahreysti hefur verið valgrein hjá okkur í þessi fjögur ár og við eflumst með hverju árinu! Stundum hefur gengið frábærlega, alltaf hefur gengið vel og í ár börðumst við eins og ljón, þó við hefðum viljað lenda ofar! En það skiptir ekki öllu máli að vinna, heldur vera með, læra og njóta!

Og hvað sem um allt og allt má segja, þá var lukkutröllið okkar það langflottasta!

Friðbergur, Mikki, Erna og Álfrún til hamingju með frábæran baráttuanda og við erum óendanlega stolt af ykkur! – Óendanlega!

Frábært kaffiboð í Þórsveri í dag!

Við erum svo ánægð með okkur hér í skólanum þessi dægrin að við erum eiginlega bara að springa!

Öll skólastig eiga hvern snilldarleikinn á fætur öðrum og starfsfólkið leggur sig í framkróka um að aðstoða þau sem best það getur!

Við komum í Landanum og þá tóku stóru krakkarnir þátt í Skólahreysti, allir nemendur skólans eru byrjaðir að æfa fyrir árshátíðina, en þá ætlum við að setja upp Skilaboðaskjóðuna og leikverk sem leiklistarval hefur verið að semja og æfa undanfarnar vikur!

Í dag buðu 1. – 4. bekkingar foreldrum sínum í morgunkaffi í Þórsveri og ekki nóg með það heldur komu líka núlltu bekkingarnir okkar líka úr leikskólanum og áttu glaðan dag.

Á eftir var farið í leiki með krökkunum, Ásdís stýrði Zumba kennslu og morgunninn tókst hreint frábærlega! Það er því ekki nema von að við séum hreint að springa úr hamingju!

Ekki skemmir heldur fyrir að við erum komin í páskafrí en eldri krakkarnir blésu úr eggjum í dag og skreyttu þau svo í öllum regnbogans litum.

Já elskurnar, lífið er ljúft!