Tónleikar Kórs MH fyrir nemendur

Kór MH

Þann 11. apríl sem ber upp á mánudag verður Kór Menntaskólans við Hamrahlíð með tónleika fyrir nemendur grunnskólanna í Langanesbyggð í Þórshafnarkirkju.

Tónleikarnir hefjast klukkan 13:00 og eru í um klukkustund.

Allir nemendur skólans eru því í skólanum til um 14:10 þennan dag og þá mun skólabíll sömuleiðis fara en þennan dag fer hann frá kirkjunni.

Nemendur í Frístund fara í sín verkefni skv. stundaskrá Frístundar.

 

Kynning á Laugaskóla í dag

laugarFimmtudaginn 31. mars kl. 15:00 mun skólameistari Framhaldsskólans á Laugum ásamt nemanda við skólann vera með stutta kynningu á námsframboði, félagslífi og sérstöðu skólans fyrir nemendur í 8. – 10. bekk. Á eftir munu þeir svara spurningum frá nemendum Grunnskólans á Þórshöfn og forráðamönnum þeirra. Laugamenn vonast til að sjá sem flesta foreldra/forráðamenn ásamt börnum sínum.

 

Skólahreysti – myndir

Sú hefð er að skapast hér í Grunnskólanum að foreldrar og nemendur í 5. – 10. bekk skunda til Akureyrar annars vegar til þess að keppa í Skólahreysti og svo hins vegar, sem er ekki síður mikilvægt, til þess að hvetja keppendurna.

Við höfum ákveðið að gera bleikan að okkar lit og í ár var farið alla leið! Lukkudýrið okkar sem Hrafngerður á stóran heiður af gerði mikla lukku, en undir niðri þessum bleika glassúr öllum var hann Mansi okkar og var hann ásamt glassúrnum valinn sá allra flottasti úr áhorfendahópnum!

Við áhorfendur vorum líka flott, en flottust af öllum voru þau Friðbergur, Álfrún, Erna, Mikki, Heimir Ari og Björg sem þorðu að taka þátt! Varamennirnir okkar þau Heimir Ari og Björg fengu líka dýrmæta reynslu og voru þess albúin að stökkva til ef meiðslu hefðu komið til.

Skólahreystisvalhópurinn gistir svo eina nótt í Kjarnaskóg í boði Grunnskólans á Bakkafirði og eiga þar saman frábærar stundir með þeim Steina og Völlu. Það er hópurinn sem gerir þetta kleift – því við verðum sem flest að taka þátt til að hægt sé að velja úr góðum hópi! Allir fyrir einn og einn fyrir alla!

Takk allir sem fóru, hvöttu og keyrðu! Takk þið sem kepptuð, gaman verður að fylgjast með á næsta ári – þá verðum við öll reynslunni ríkari og vitum enn betur á hverju við eigum von!

Skólastjórinn fór nú í fyrsta sinn til þess að fylgjast með og það verður að segjast að tár féllu af hvarmi, hann var svo óendanlega stoltur af þessu flotta fólki öllu saman! Þið voruð einfaldlega best!

 

Skólahreysti er mannbætandi

Skólahreystishefð Grunnskólans á Þórshöfn hefur vaxið og dafnað á þeim fjórum árum sem við höfum tekið þátt. UMFL gaf skólanum búnað til æfinga og skólinn tók verkið að sér og sinnir því af fullri einurð!

Krakkar í 5. – 10. bekk eru hvattir til að mæta á undanúrslitakeppnina á Akureyri og hvetja sitt lið.  Skólahreysti hefur verið valgrein hjá okkur í þessi fjögur ár og við eflumst með hverju árinu! Stundum hefur gengið frábærlega, alltaf hefur gengið vel og í ár börðumst við eins og ljón, þó við hefðum viljað lenda ofar! En það skiptir ekki öllu máli að vinna, heldur vera með, læra og njóta!

Og hvað sem um allt og allt má segja, þá var lukkutröllið okkar það langflottasta!

Friðbergur, Mikki, Erna og Álfrún til hamingju með frábæran baráttuanda og við erum óendanlega stolt af ykkur! – Óendanlega!

Frábært kaffiboð í Þórsveri í dag!

Við erum svo ánægð með okkur hér í skólanum þessi dægrin að við erum eiginlega bara að springa!

Öll skólastig eiga hvern snilldarleikinn á fætur öðrum og starfsfólkið leggur sig í framkróka um að aðstoða þau sem best það getur!

Við komum í Landanum og þá tóku stóru krakkarnir þátt í Skólahreysti, allir nemendur skólans eru byrjaðir að æfa fyrir árshátíðina, en þá ætlum við að setja upp Skilaboðaskjóðuna og leikverk sem leiklistarval hefur verið að semja og æfa undanfarnar vikur!

Í dag buðu 1. – 4. bekkingar foreldrum sínum í morgunkaffi í Þórsveri og ekki nóg með það heldur komu líka núlltu bekkingarnir okkar líka úr leikskólanum og áttu glaðan dag.

Á eftir var farið í leiki með krökkunum, Ásdís stýrði Zumba kennslu og morgunninn tókst hreint frábærlega! Það er því ekki nema von að við séum hreint að springa úr hamingju!

Ekki skemmir heldur fyrir að við erum komin í páskafrí en eldri krakkarnir blésu úr eggjum í dag og skreyttu þau svo í öllum regnbogans litum.

Já elskurnar, lífið er ljúft!