HIV Ísland með fræðslu á Þórshöfn

hiv

Í dag fengu nemendur í 9. og 10. bekk fræðslu um HIV veiruna en þá fræðslu veitir HIV Ísland annað hvert ár, um allt land.

Markmið og tilgangur félagsins er að auka þekkingu og skilning almennings á hiv og alnæmi og styðja hiv smitaða, sjúka og aðstandendur þeirra.

Þessi megin markmið hafa ekkert breyst á þeim 25 árum sem félagið hefur starfað enda þörfin fyrir stöðuga fræðslu til almennings mikil, þrátt fyrir gríðarlega miklar og jákvæðar framfarir í meðferð og þekkingu manna á hiv og alnæmi síðustu árin.

Á vinnuplöggum um stefnu og framtíðarsýn Hiv Ísland fyrir árið 2014 er unnið út frá eftirfarandi einkunarorðum. Fræðsla, forvarnir, samstarf, sýnileiki, virðing, vinna, viðhorf, réttlæti, þátttaka og lífsgæði.

Háskólalestin nálgast Þórshöfn

guðrún bachmannÍ dag fengum við góða gesti til okkar frá Háskólalestinni og Háskóla unga fólksins. Tilgangur heimsóknarinnar var að kanna aðstæður fyrir stóru dagana 22. og 23. maí en þá verður sannkölluð þjóðhátíðarstemmning hér á Þórshöfn. Guðrún Bachman skoðaði sig hér um og leist vel á allar aðstæður. Hún kemur eftir réttan mánuð aftur og þá með alla lestina með sér, vísindagögn og 15 vísindamenn!

Háskólalestin býður upp á vísindaveislu fyrir alla íbúa skólahverfa Grunnskólans á Þórshöfn og Grunnskólans á Bakkafirði. Mikið verður um dýrðir bæði á föstudag og laugardag.

Föstudaginn 22. maí verða vísindastöðvar í Grunnskólanum á Þórshöfn þar sem nemendur í 5. – 10. bekk fá að velja um þrjár stöðvar til að vinna á þann daginn og á laugardaginn verður stórskemmtileg hátíð þar sem öllum íbúum, ungum sem öldnum er boðið til vísindaveislu.

Nánar verður þetta auglýst síðar en þið skuluð svo sannarlega taka daginn frá því svona tækifæri býðst ekki á hverjum degi!

Góður styrkur úr Sprotasjóði

IMG_1557Grunnskólinn á Þórshöfn hefur hlotið góðan styrk úr Sprotastjóði í þróunarverkefni sem hefst næsta haust við skólann og ber heitið: Lýðræði, þátttaka og hlutdeild allra í skólastarfi Grunnskólans á Þórshöfn.

Markmið verkefnisins er að skólastarfið endurspegli það fjölmenningarlega samfélag sem skólinn á rætur sínar í. Við viljum gera menningu allra nemenda okkar sýnilega og námskrá skólans taki mið af henni og hún sé hluti af starfsháttum okkar og hluti af öllu  foreldrasamstarfi. Við viljum efla samstarf við tvítyngda foreldra og styðja þá betur til virkrar þátttöku í öllu skólastarfi. Markmiðið er einnig að vinna að því að efla skólamenninguna með virkri hlutdeild allra og auka lýðræðislega aðkomu skólasamfélagsins að skólastarfinu.

Grunnskólinn á Þórshöfn hefur unnið markvisst að skólaþróun á síðast liðnum þremur árum og hefur meðal annars unnið að þróunarverkefni um breytta kennsluhætti, námskrárgerð og ART (Anger Replacement Training). Þessi verkefni hafa öll skilað okkur góðum grunni sem gott er að byggja á. Það er áreiðanlegt að hið nýja verkefni sem við ráðumst í næst komandi haust mun gera slíkt hið sama og styrkurinn stuðlar sannarlega enn frekar að því að vel takist til.