Hvernig lærum við?

Eitt hið mikilvægasta í öllu námi jafnt innan skóla sem utan er að þekkja sjálfan sig, vita hvernig við lærum.

Við hvetjum ykkur öll til þess að setjast niður með barninu ykkar og ræða vel hvernig best er hægt að undirbúa sig í undirbúningi fyrir próf en ekki síður um það hvernig við lærum og hvernig við getum orðið betri og betri námsmenn.

Það er hluverk okkar að hjálpa börnum til raunhæfs sjálfsmats, kynna þeim markmið námsins vel og hvernig þau nást.Nemendur þurfa að velta fyrir sér námi sínu, hvernig gengur og hvað gengur vel eða hvað þarf að ganga betur. Afar mikilvægt er að við leggjumst öll á árar með að kynna fyrir nemendum hvert skuli stefna.

Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig hægt er að ræða við nemendur um þeirra eigin hugmyndir um sig og sínar leiðir til náms. Hún getur nýst vel til að ræða við nemendur í aðdraganda formlegs námsmats og jafnt og þétt á skólagöngunni.

Hér má finna eilítið fleira sem rétt er að huga að fyrir námsmat

hvernig_laeri_eg

Prófavikan nálgast

Nú nálgast óðum vorið. Um leið og vorið er tími gróðursetningarinnar er það líka uppskerutími hér í skólanum. Við tökum saman það sem við höfum lært, metum það og rifjum upp. Þetta gerum við í námsmatinu okkar en námsmat getur verið með ýmsu sniði.

Námsmat er nefnilega ekki bara próf þó þau séu það matstæki sem við þekkjum best. Margt af því sem metum í skólastarfinu er ekki gott að meta með prófum, t.d. það nám sem á sér stað í kjölfar árshátíðar eða skapandi skólastarf þar sem nemendur vinna saman eða einir að fjölbreyttum verkefnum þar sem ýmis hæfni er þjálfuð. Námsmatið okkar í Grunnskólanum á Þórshöfn er leiðsagnarmat. Leiðsagnarmat er leiðbeinandi fyrir alla, foreldra, nemendur og starfsfólk skólans þar sem tekið er saman það sem nemandi hefur náð að tileinka sér og eins hitt hvað þarf að þjálfa betur þannig að nemandinn geti nýtt sér það í frekara námi. Leiðsagnarmat er í þágu náms.

Mat á félagsfærni, sjálfsmat, jafningjamat og símat eru allt dæmi um námsmatstæki sem við nýtum hér í skólanum. Námsmatið á að endurspegla þá kennsluhætti sem notaðir hafa verið og byggja á traustum heimildum.

Nemendur geta undirbúið sig með fjölbreyttum hætti í prófavikunni. Hér má finna afar góða samantekt á þeirri námstækni sem gott er að þjálfa fyrir próf og mikilvægt er að hafa í huga að ábyrgðin liggur hjá nemandanum því enginn getur sinnt þessari vinnu fyrir hann, en kennarar og heimilin geta stutt við undirbúninginn með ýmsum hætti.

próftafla 1