Ljóð dagsins

Hafralónsá

Þú spyrð mig um haustið

Þú spyrð mig um haustið. Það kemur og eignar sér engin
sem ilma nú vel eftir sláttinn með sílgrænar lanir.
Það kemur og reikar á nóttunni niður við á

og þar sem hún rennur glaðvær hjá bökkum og blá
bindur það hörpu tunglsins þvert yfir vatnið
og kallar á vindinn, lætur hann leika á strenginn
löng og dapurleg rökkurstef og hlustar
fram undir morgun.
En þú verður farin þá.

Hannes Pétursson

Foreldrakaffi í GÞ á fimmtudagsmorgnum

kaffi

Heil og sæl
Allt frá því ég tók við skólastjórn á Þórshöfn hefur mig langað til þess að koma á foreldrakaffi einn morgun í viku og nú er komið að því!
Alla fimmtudaga eru foreldrar velkomnir í morgunkaffi í Grunnskólanum frá 8:00 – 9:00. Í boði verður kaffisopinn, bækur og blöð sem tengjast skólastarfi til þess að glugga í og hver veit nema starfsmenn verði til staðar til skrafs og ráðagerða. Að minnsta kosti verð ég viðlátin á þessum tíma og að sötra mitt kaffi.

Foreldrar geta fylgt krökkunum í skólann og hitt okkur í leiðinni og litið inn í kennslustundirnar um leið og þið farið heim.

Við hlökkum til þess að sjá ykkur sem flest en fyrsti foreldrafimmtudagurinn verður nú á fimmtudaginn 13. nóvember.

Bestu kveðjur Ingveldur