Ljóð dagsins

Sjávarkauptún á hvíldardegi
Það líður frá hádegi.
Hafgolan leitar inn:
um húsasund og götur
fer gustur blýlitaður.

Mjög stakar
verða strjálar persónur
utandyra
fyrir opnu Norðrinu.

Fjörðurinn í boga
blágrænn við sand og malir

í stórum boga
sem er stjörnunum samboðinn.

Og hjartað fylgist með deginum:
daufgerðum, löngum mínútum
í halarófu
inn undir himin kvöldlygnunnar.

Hannes Pétursson