Samlokusala á morgun og sparinesti

samloka

 

Á morgun er runninn upp síðasti föstudagar septembermánaðar og það þýðir bara eitt! Samlokusala og sparinesti.

10. bekkingarnir eru í fjáröflun og selja samlokur og svala á kr. 700 (ath. breytt verð vegna verðlagsbreytinga!).

Bestu kveðjur 10. bekkur

Góður samtalsdagur að baki

purple-flowers-wallpaperKæru foreldrar, forráðamenn og nemendur!

Að baki er fyrsti samtalsdagur vetrarins þar sem nemendur og kennarar áttu saman spjall um áherslur vetrarins og stöðuna í upphafi hans. Foreldrar lögðu auðvitað sitt til málanna. Dagurinn var sérlega ánægjulegur og eru umsjónarkennarar skólans þakklátir fyrir þessa góðu stundir með ykkur. Nú vitum við svo miklu meira en fyrr um ykkur, áherslur, væntingar og markmið.

Mæting var nánast 100% og er það sérlega ánægjulegt. Ekkert er mikilvægara en gott samtal um skólagönguna og samstarf heimila og skóla.

Kærar þakkir fyrir okkur!

Umsjónarkennarar

Samræmd próf í næstu viku

Á mánudag hefjast samræmduprófin. 10. bekkur ríður á vaðið og tekur þá íslenskupróf. Á þriðjudag er enska og á miðvikudaginn er stærðfræðin.

4. og 7. bekkur fara í sín próf á fimmtudag og föstudag, fyrst í íslensku og þá í stærðfræði.

Nánari upplýsingar er að finna á samskiptatorgi Mentors.

Nordplus krakkarnir halda til síns heima

Á morgun munu þau Nik og Vilborg fylgja góðum gestum okkar til Keflavíkur í flug og lýkur þar með þessari góðu heimsókn sem hefur varað í rúma viku. Að baki er frábær tími og við í skólanum erum afar stolt af því hvernig hefur tekist til! En því miður verður fjarvera þeirra Nik og Vilborgu til þess að kennsla fellur niður hjá 5. – 6. bekk, eftir hádegi á mánudag og þriðjudag, 15. og 16. september. Vonandi geta krakkarnir nýtt þann tíma vel, til dæmis má alltaf lesa og reikna! Það er nú ekki leiðinleg iðja!

Samtalsdagur miðvikudaginn 17. september

Á miðvikudag verður ekki kennsla í skólanum, heldur er þá samtalsdagur nemenda, foreldra og umsjónarkennara.

Vinsamlegast athugið þó, að heimanámstímar verða með sama sniði og venjulega, þ.e.a.s. klukkan 13:30 fyrir þá sem það vilja.

Foreldrar ská sig í samtöl í gegnum Mentor en sú aðferð reyndist mjög vel í fyrra. Nánari upplýsingar um hvernig það er gert má finna hér.  Hægt er að skrá sig í samtal fram á þriðjudagskvöld.

Nokkur undirbúningur er fyrir samtalið en gögn þar um fara heim á mánudag. Einnig má finna frekari upplýsingar á Samskiptatorgi Mentors.

Vinsamlegast snúið ykkur til umsjónarkennara barnsins ykkar ef eitthvað er óljóst, þið komist ekki þennan dag, eða með aðrar fyrirspurnir.

Góður styrkur frá Verkalýðsfélagi Þórshafnar

verkalýðsfélag

Svala og Kristín verkalýðshetjurnar okkar á góðri stundu

Í vetur kennir Þorsteinn Ægir skyndihjálp öllum nemendum skólans í 7. – 10. árgangi. Við erum afskaplega stolt að geta boðið upp á þetta nám hér í skólanum. Verkalýðsfélag Þórshafnar styrkir skólann veglega með því að greiða bókakostnaðinn og þökkum við kærlega fyrir þann góða styrk.

Hér á eftir fylgir námskeiðslýsingin en hér eru á ferðinni 18 kest. námskeið.

Markmið:

Námskeiðið er ætlað öllum sem vilja læra og kynnast skyndihjálp og endurlífgun og öðlast öryggi, færni og þekkingu í að veita nærstöddum aðstoð í bráðatilfellum með því að beita á öruggan hátt einföldum aðferðum í skyndihjálp.

Viðfangsefni:

Kynning: hvað er skyndihjálp?

Undirstöðuatriði:  streita í  neyðartilfellum, tilfinningarleg viðbrögð eftir að hafa veitt skyndihjálp, sálrænn stuðningur og að forðast sýkingar.

Fjögur skref skyndihjálpar: tryggja öryggi á vettvangi, meta ástand slasaðra eða sjúkra, sækja hjálp og veita skyndihjálp.

Grunnendurlífgun og sjálfvirkt hjartastuð: að athuga viðbrögð, að opna öndunarveg, að athuga öndun, hjartahnoð og blástursaðferð, sjálfvirkt hjartastuð (AED), endurlífgunarkeðjan, hliðarlega og losun aðskotahlutar úr öndunarvegi.

Skyndihjálp: Áverkar; innvortis- og útvortis blæðingar, sár, brunasár, áverkar á höfði, hálsi eða baki, áverkar á beinum, vöðvum eða liðum, eitranir hitaslag/hitaörmögnun og ofkæling.

Bráð veikindi: brjóstverkur (hjartaáfall), bráðaofnæmi, heilablóðfall, flog, sykursýki og öndunarerfiðleikar (astmi).

Skyndihjálp framhald: nánari líkamsskoðun, eitrun, blóðnasir, lost, sár og sáraumbúðir, raflost, höfuðáverkar, tannáverkar, skorðun á hrygg, áverkar á brjóstkassa og kvið, vöðvakrampar, sýklasótt.

Þrátt fyrir mörg atriði þá verður farið mis mikið í þau þ.e.a.s. sumt er batra að kunna en annað.

Verklag: Fyrirlestur, umræður, verklegar æfingar og sýnikennsla