Kirkjuferð hjá 1. – 8. bekk

Í gær lögðum við land undir fót og heimsóttum kirkjuna á Þórshöfn. Þar áttum við yndislega stund þar sem skólastjóri fór yfir þýðingu þessa húss, kirkjunnar fyrir kristna menn og nefndi til dæmi að ekki mætti hlaupa í kirkjum og þar þyrfti að taka niður húfurnar! Hún minntist þess líka að það hefði verið harðbannað að sjá jólatréð fyrr en klukkan 18:00 á aðfangadag – en í dag stendur tréð fullskreytt í stofunni hjá henni! Já svona hefur margt breyst.

Hanna María fór yfir helstu tákn sem finna má í kirkjunni, merkingu skírnarinnar, altaris og predikunarstóls – sem er líklega eini stóllinn sem fyrirfinnst sem ekki hefur nokkra setu og aldrei er sest í.

Sungin voru nokkur jólalög og við erum alveg ákveðin í því að gera þetta aftur á næsta ári, svo vel tókst til!

Takk fyrir indæla stund í kirkjunni krakkar.

ImageImage

 

 

hanna_altari ie

Litlu jólin á morgun!

Litlu jólin á morgun!

Á morgun er hátíðardagur í skólanum okkar! Litlu jólin eru ætíð einn af helstu viðburðum skólaársins – enda mikil hátíð. Litlu jólin hefjast klukkan 16:00 á morgun og nemendur mega koma með nammi með sér í skólann og drykk að eigin vali.

Nemendur eiga sömuleiðis að koma með pakka á litlu jólin sem kosta um 500 – 1000 krónur – rétt til að gleðja bekkjarfélagana.

Klukkan 18:00 er nemendum skólans boðið til kvöldverðar í Þórsveri ásamt starfsfólki skólans. Hafið því í huga að stilla veitingum á stofujólunum í hóf – svo krakkarnir fái notið matarins sem Karen mun bera fram af sinni alkunnu snilld!

Hvernig líkar þér nýi vefur skólans?

Á liðnum vikum höfum við í skólanum verið að þreifa okkur áfram með nýjan vef hér á wordpress. Gamli vefurinn okkar á grunnskolinn.is/thors, þykir þungur og erfiður í umgengni. Þó wordpress verði e.t.v. ekki framtíðarstaður skólavefs GÞ, þá kunnum við um margt ágætlega við þetta viðmót. En ekki síður er mikilvægt að vita hvernig notendur vefjarins kunna við sig. Gott væri því að fá álit ykkar á vefnum, ef þið megið vera að – svona mitt í jólaönnunum!

Skipulag næstu viku – Bráðum koma blessuð jólin

Skipulag næstu viku - Bráðum koma blessuð jólin

Ekki verður val í næstu viku heldur verða nemendur í 8. – 10. bekk í hefðbundinni kennslu á mánudag og miðvikudag eftir hádegi. Annars er skipulag næstu viku í grófum dráttum þetta:

16. des. mánudagur Hefðbundinn skóladagur
17. des. þriðjudgur Hefðbundinn skóladagur
18. des. miðvikudagur 9. og 10. bekkur – hefðbundinn skóladagur
Kl. 10:10 fara 1. – 8. bekkur gangandi til kirkju og eiga þar notalega stund. Eftir hádegi flokkar 5. og 6. bekkur jólakortin og dreifir í stofurnar.
19. des. fimmtudagur 1. – 6. bekkur og 9. – 10. bekkur Hefðbundinn skóladagur frá 8:10 – 11:50. 7. – 8. bekkur skreyta félagsheimili, leggja á borð og skreyta jólatréð.

Klukkan 16:00 eru stofujól.
Klukkan 18:00 er öllum nemendum og starfsmönnum boðið til kvöldverðar í Þórsveri.
Klukkan 19:00 erum við komin í jólafrí!

Jólagluggamyndir Grunnskólans á Þórshöfn

Nú þegar jólin nálgast eru íbúar Þórshafnar því vanastir að líta augum vel skreytta glugga Grunnskólans. Myndirnar hafa prýtt gluggana í rúm 30 ár og því ekki að undra að þær hafi skapað sér sess í jólamenningu Þórshafnar.

Það er hins vegar svo að myndirnar eru margar hverjar orðnar mjög illa farnar og erfitt og jafnvel illmögulegt er að setja þær upp. Mikla vinnu þarf að leggja í að endurgera þær, laga og betrumbæta og er sú vinna varla á færi barna og unglinga.

Við höfum því ákveðið að myndirnar verði ekki settar upp í ár heldur verði þær geymdar og vinna lögð í að endurgera þær og laga á næsta ári.

Hér er komið gott tækifæri fyrir Hollvinasamtök Grunnskólans að koma að málum, íbúana, starfsfólk og nemendur Grunnskólans  næsta haust. Þannig eignast allir hlutdeild í þessum fallega og góða jólasið.

Vonandi sjáumst við sem flest í jólamyndagerðinni næsta haust!

Þangað til verða jólaljósin að duga!